Peningamál Seðlabankans koma út á morgun og samhliða útgáfunni mun bankinn væntanlega tilkynna um breytingu á stýrivöxtum sínum. Spár markaðsaðila um vaxtahækkunina liggja á frekar breiðu bili að þessu sinni, en spáð er allt frá 0 - 0,75% hækkun vaxta.Greiningardeild KB banka spáir því að Seðlabankinn hækki vexti sína um 25 til 50 punkta við þetta tækifæri og verði stýrivextirnir því á bilinu 10,5% til 10,75% eftir breytinguna. Greiningardeild Landsbankans á von á að vextir verði hækkaði um 0,25 - 0,5%. Við gerum jafnframt ráð fyrir að bankinn tilkynni að reglubundnum uppkaupum á gjaldeyrismarkaði verði haldið áfram á næsta ári.

"Rökstuðningurinn fyrir lægri mörkum spárinnar felst í því að tekin hefur verið ákvörðun um formlega vaxtaákvörðunarfundi. Tíðni þeirra funda hefur enn ekki verið tilkynnt en Greiningardeild gerir ráð fyrir því að þeir verði haldnir á mánaðarfresti. Það felur í sér að Seðlabankinn hefur mun fleiri tilefni til þess að breyta vöxtum en ársfjórðungslega útgáfudaga Peningamála og vaxtabreytingar munu líklega koma í smærri stökkum en verið hefur hingað til. Þannig gæti Seðlabankinn valið þá leið að hækka um 25 punkta nú og áskilja sér allan rétt til þess að hækka aftur eftir mánuð í ljósi stöðunnar þá. Önnur ástæða gæti falist í því að Seðlabankinn telji að verðbólguhorfur hafi batnað svo mikið eftir síðustu útgáfu Peningamála í september að ekki sé þörf á meiri vaxtahækkun en 25 punktum. En frá þeim tíma hefur verðtryggð langtímakrafa hækkað um 25 til 60 punkta sem mun væntanlega stemma stigu við hækkun fasteignaverðs á næstu mánuðum og þannig lækka verðbólgu. Auk þess gæti slæm staða útflutningsgreina spilað inn í vaxtaákvörðun bankans," segir í Hálffimm fréttum KB banka.