Vegagerðin spáir því nú að umferðin á höfuðborgarsvæðinu aukist í ár um 1-1,5%.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar en ef spáin rætist er það nokkur breyting frá fyrra ári því í fyrra dróst umferðin saman um 2,5%.

Umferð um höfuðborgarsvæðið dróst lítillega saman milli ágúst mánaða eða um 0,6%. Mestu munar þar um að umferð um Hafnarfjarðarveg dróst saman um 3,6% og Vesturlandsveg um 1,7%. Umferð um Reykjanesbraut jókst hins vegar um 1,5% miðað við sama mánuð árið 2011.

Þá kemur fram að það sem af er ári hefur akstur innan höfuðborgarsvæðisins þó aukist um 1,4%. Á sama tíma í fyrra hafði umferð dregist saman um 2,8% á milli ára.