Verðlag mun hækka um 0,3% í ágúst frá fyrri mánuði, gangi ný verðbólguspá IFS Greiningar eftir. Þannig myndi tólf mánaða verðbólga haldast óbreytt í 1,9%, en verðbólga undanfarna þrjá mánuði á ársgrundvelli myndi hækka úr 2,8% í 2,9%. Hagstofa Íslands mun birta verðbólgutölur í lok mánaðarins.

Í spánni kemur meðal annars fram að útsölur á fötum, skóm og húsgögnum hafi verið í júlímánuði og gangi að mestu til baka í ágúst og svo í september. Verð á fötum og skóm hafi lækkað um 11% í júlímánuði, og er gert ráð fyrir að verðið hækki um 7% í ágúst.

Liðurinn bensín og olíur mun lækka um 4,1% milli mánaða samkvæmt spánni. Verð á flugi til útlanda muni lækka um 11%, en húsnæðisliðurinn fara hækkandi auk matarkörfunnar.

Bráðabirgðaspá IFS Greiningar næstu mánuði gerir ráð fyrir að verðlag muni hækka um 0,4% í september, 0,3% í október og 0,3% í nóvember. Gangi spáin eftir mælist tólf mánaða verðbólga 3,5% í nóvember 2015.

Hægt er að lesa spána í heild sinni hér .