Greiningardeild Arion banka spáir því að verðbólga fari úr 3,9% í september í 4,15% í þessum mánuði. Forsendurnar eru m.a. 3,1% hækkun á heildsöluverði á mjólk og mjólkurafurðum sem koma fram í verðbólgutölunum auk áhrif af verðhækkun á fasteignamarkaði. Ofan á bætist hækkun á flugfargjöldum. Lægra eldsneytisverð mun vega á móti.

Greiningardeild segir að gangi bráðabirgðaspá eftir muni draga úr verðbólgu á ný og hún fara í 3,5% í janúar á næsta ári.

„Við teljum þó að verðbólguhorfur geti mögulega versnað frá því sem gert er ráð fyrir í bráðabirgðaspánni einkum ef krónan heldur áfram að veikjast eins og hún hefur gert að undanförnu,“ segir greiningardeildin.