Útlitið hefur ekki verið verra á breskum atvinnumarkaði í áratug að sögn samtaka um atvinnumál í Bretlandi. The Chartered Institute of Personnel and Development spáir auknu atvinnuleysi á nýju ári. Stofnunin telur að um 150.000 manns missi vinnuna á árinu og að fjöldi atvinnulausra á árinu nái 1,8 milljón manns sem er er 5,8% atvinnuleysi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Hagfræðingur á vegum samtakanna segir að hægja muni á efnahagskerfinu á næsta ári. Hann spáir lækkun stýrivaxta og telur að þetta ástand kunni að vera fram yfir næstu áramót. Stofnunin telur að í einkageiranum muni atvinnuleysi helst aukast hjá fjármálafyrirtækjum en þau hafa að sögn samtakanna verið „drifkraftur fyrir vaxandi atvinnu“ síðustu ár en muni á næstunni hagræða vegna erfiðleika sem meðal annars má rekja til bandaríska húsnæðismarkaðsins.

Óvissa á mörkuðum

The Institute of Directors (IOD), sögðu að efnahagskerfið væri að sigla inn í mikla óvissu, þá mestu í 15 ár. Þeir segja einnig að enn eigi eftir að koma í ljós hversu umfangsmikil vandræðin síðustu vikur hafa verið. Það muni væntanlega koma í ljós næstu mánuði.

Hópurinn varar hins vegar við því að aukin verðbólga kunni að koma í veg fyrir lækkun stýrivaxta seðlabankans auk þess að koma í veg fyrir vöxt hagkerfisins. Hagfræðingur IOD segir að hægur hagvöxtur og verðbólga verði einnkenni ársins sem nú er gengið í garð. „Hin yfirfullu ár eru liðin,“ sagði Greame Leach, hagfræðingur IOD.

Siðastliðin október sagði rannsóknarmiðstöð um efnahags og viðskiptamál (e. Centre for Economics and Business) að um 6.500 störf myndu tapast í fjármálageiranum í Lundúnum árið 2008. Rannsóknarmiðstöðin segir að opinber störf komi líka til með að tapast þar sem auka eigi skilvirkni hjá hinu opinbera. Það sé ekki hægt nema með því að fækka störfum á vegum hins opinbera.