Efnahagssérfræðingar þýsku ríkisstjórnarinnar hafa hækkað hagvaxtarspá fyrir þetta ár. Núverandi spá gerir ráð fyrir 1,8% hagvexti á þessu ári samanborið við fyrri spá sem hljóðaði upp á 1,6% vöxt. Ástæður hækkunarinnar eru þær að kröftugur uppgangur efnahagslífsins í nokkrum stærstu hagkerfum heimsins hefur leitt til mikillar aukningar í útflutningi.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að einkaneyslan heldur aftur af frekari vexti. Þrátt fyrir að hagvaxtarspáin hafi verið hækkuð þá er 1,8% vöxtur ekki mikill þegar hann er borinn saman við önnur stærstu hagkerfi heimsins. T.d. spáir Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn (IMF) að hagvöxtur á evrusvæðinu verði 1,7% í ár, meðan hann spáir 4,6% hagvexti í Bandaríkjunum og 3,4% í Japan. Minni hagvöxtur í Þýskalandi skýrist af því að neytendur halda að sér höndum, m.a. vegna erfiðs ástands á vinnumarkaði. Svo lengi sem einkaneyslan fer ekki að aukast þá er ljóst að hagvöxtur mun ekki taka við sér að ráði, þar sem að einkaneysla telur fyrir meira en helmingi landsframleiðslunnar.