Viðauki við fjárhagsáætlun Bolungarvíkur í ár var samþykktur á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku, að því er kemur fram í frétt Bæjarins besta. Með viðaukanum er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðu Bolungarvíkurkaupstaðar verði 21,6 milljónum króna betri en fyrri áætlun gerði ráð fyrir.

Í viðaukanum er gert er ráð fyrir að tekjur verði 34,5 milljónum króna hærri en gert var ráð fyrir í upphaflegri fjárhagsáætlun og er að stærstum hluta um að ræða hækkun á útsvarstekjum upp á 27 milljónir króna. Þá er einnig gert ráð fyrir 10,8 milljón króna aukningu á rekstrarkostnaði í A-hluta og 5,9 milljónum króna bætt við viðhaldskostnað vegna stærri verkefna. Það er því gert ráð fyrir að A-sjóðurinn verði með tæplega 18 milljónum króna betri útkomu en gert var ráð fyrir.

Gert er ráð fyrir að tekjur stofna í B-hluta hækki um 10,2 milljónir króna og rekstrargjöld hækki um 6,4 milljónir króna frá upphaflegri fjárhagsáætlun.