Búist er við því að verðbólga aukist á næstu vikum og mánuðum í samanburði við tímabilið apríl til september, þegar meðalhækkun vísitölu neysluverðs á mánuði nam 0,19%. Við sambærilegar aðstæður í sögunni hafa verðtryggð ríkisskuldabréf skilað betri ávöxtun en óverðtryggð og því er ástæða til að fara yfir óverðtryggðar eignir í eignasöfnum og huga að aukinni verðtryggðingu á næstunni. Kemur þetta fram í dagbók eignastýringar Landsbankans , sem kom út í dag.

Segir í dagbókinni að verðtryggðir ríkisskuldabréfasjóðir beri mun betri ávöxtun en þeir sem eru óverðtryggðir og með stuttan lánstíma. Þess sé virði að verja óverðtryggðar eignir með verðtryggingu og lengri lánstíma á meðan bylgja verðhækkana gengur yfir.

Gert sé ráð fyrir því að hækkun á VNV í október hafi numið 0,4%-0,6%. Á næstu mánuðum megi gera ráð fyrir enn frekari hækkunum á vísitölunni vegna lægra gengis krónunnar auk hækkandi fasteignaverðs. Þá kunni hækkun launa að auka verðbólgu eftir áramót, sem og opinberar hækkanir. Vegna meiri verðbólgu á næstu mánuðum megi búast við stýrivaxtahækkunum frá Seðlabankanum í haust.