Greiningardeild KB banka fjallar í Hálffimm fréttum sínum í dag um nýja samsetningu úrvalsvísitölunnar en 12. desember mun Kauphöll Íslands greina frá því hvaða 15 félög munu mynda grunninn að Úrvalsvísitölunni (ICEX-15) á fyrri hluta ársins 2006. Spáir greiningardeildin að það verði Dagsbrún, Atorka Group og Mosaic sem komi ný inn í vísitöluna.

Viðmiðunartímabilið til grundvallar valinu að þessu sinni er nú liðið en það er tólf mánaða tímabilið frá 1. desember 2004 til 30. nóvember síðastliðins. Af því tilefni hefur Greiningardeild KB banka tekið saman áætlun um samsetningu vísitölunnar, þ.e. hvaða félög eru líklegust að þeirra mati til að verða fyrir valinu, byggt á gögnum og aðferðarfræði Kauphallarinnar við val félaga í vísitöluna.

Niðurstaða þeirra er eins og áður sagði að Dagsbrún, Atorka Group og Mosaic Fashions komi inn í Úrvalsvísitöluna þann 1. janúar næstkomandi í stað Burðaráss, Jarðborana og HB Granda. Að öðru leyti gerum þeir ráð fyrir óbreyttri skipan vísitölunnar. Gangi þessi áætlun okkar eftir munu þessi þrjú nýju félög, ásamt þeim tólf sem við gerum ráð fyrir að verði áfram inni, mynda grunninn að Úrvalsvísitölunni fyrstu 6 mánuði næsta árs eða fram til 30. júní 2006.