Mikill meirihluti leiðandi hagfræðinga, sem BBC leitaði til, spá því að samdráttur verði í Evrópu á næsta ári. Leitaði BBC til 34 breskra og evrópskra hagfræðinga og svöruðu 27 þeirra spurningum fréttastofunnar. Af þeim spáðu 25 samdrætti í Evrópu árið 2012.

Þá spáði einn fimmti hluti hagfræðinganna því að evrusvæðið myndi ekki verða til í núverandi mynd, en meirihluti þeirra sagði 30-40% líkur á því að evrusvæðið brotni upp á árinu.

Að því er segir í frétt BBC eru hagfræðingarnir á þeirri skoðun að þetta sé háð því hversu vel og hratt evrópskum stjórnmálamönnum gengur að leysa skuldavanda evruríkjanna. Því lengur sem skuldavandinn verður óleystur því meiri líkur eru á samdrætti á svæðinu.