Alþjóðabankinn spáir áframhaldandi hagvaxtarskeiði í heiminum á næstu áratugum. Sérfræðingar bankans telja allar forsendur til þess að alþjóðahagkerfið muni vaxa hraðar næstu tuttugu og fimm ár en það gerði á árunum1980 til 2005. Í nýrri skýrslu bankans um framtíðarhorfur alþjóðahagkerfisins til ársins 2030 er gert ráð fyrir áframhaldandi alþjóðavæðingu og aukningu á alþjóðaviðskiptum sem munu meðal annars hafa þær afleiðingar að ríki sem áður voru á jaðri alþjóðahagkerfisins muni færast nær miðju og veita Vesturlöndum harðari samkeppni á helstu mörkuðum. Þrátt fyrir að það dragi úr hagvexti í heiminum á næstu árum eru horfurnar taldar góðar.

Til skemmri tíma litið telja skýrsluhöfundar að útlitið sé harla gott þrátt fyrir að eitthvað muni draga úr vexti alþjóðahagkerfisins næstu tvö árin. Gert er ráð fyrir að verðbólguþrýstingur verði lítill næstu árin. Hátt hlutfall sparnaðar í olíuútflutningsríkjum og í Evrópu muni gera það að verkum að langtímavextir verði að jafnaði lágir. Þrátt fyrir að búist sé við að dragi úr hagvexti í þróunarríkjum muni vaxtastigið meðal annars gera það að verkum að hann verði samt sem áður kraftmikill. Bankinn spáir því að hagvöxtur í þróunarríkjum muni verða um sex prósent á næstu árum og vera helmingi meiri en á Vesturlöndum. Skýrsluhöfundar telja að áframhaldandi hagvaxtarskeið verði til þess að verð á mikilvægum orkugjöfum og hráefnum verði til þess að heimsmarkaðsverð muni áfram verða í sögulegum hæðum. Óvissuþættirnir í spá Alþjóðabankans felast fyrst og fremst í miklu flökti á olíumörkuðum ekki síst vegna ótryggs ástands á sviði alþjóðamála og hugsanlegum samrætti á fasteignamörkuðum á Vesturlöndum sem myndi draga úr almennri eftirspurn. Auk þess gæti ekki síður orðið örlagaríkt taki að vindast ofan af viðskiptahallanum í Bandaríkjunum. Slík þróun gæti leitt til ójafnvægis á alþjóðafjármálamörkuðum á næstu árum.

Horft til framtíðar

Þrír þættir munu einkenna áframhaldandi alþjóðavæðingu næstu áratuga að mati skýrsluhöfunda Alþjóðabankans. Í fyrsta lagi aukið vægi þróunarríkja í alþjóðaviðskiptum. Í öðru lagi aukið vægi þjónustugreina fyrir alþjóðaviðskipti og í þriðja lagi: Hraðari útbreiðsla tækninýjunga á milli landa sökum lækkandi samskiptakostnaðar og aukið aðgengi í þróunarlöndum að nútíma fjarskiptatækni. Þetta mun leiða til þess að hagkerfi heimsins munu verða enn samofnari en nú er og ryðja farveg fyrir enn víðtækari alþjóðaviðskipti.

Að mati sérfræðinga bankans munu þróunarríkin vaxa hlutfallslega meira en Vesturlönd gangi þessi þróun eftir. Því er spáð að hlutur þeirra í alþjóðahagkerfinu vaxi úr því að vera 23% árið 2005 í það að verða 31% árið 2030. Þessi þróun mótast meðal annars af þeirri forsendu að þróunarlönd muni í auknu mæli vera samkeppnishæfari í viðskiptum með þjónustu. Því er spáð að vöxtur ríkja eins og Kína munu ekki eingöngu felast í því að vera einhverskonar verksmiðja heimsins heldur einnig byggjast á þjónustugreinum. Sú þróun er þegar hafin á Indlandi og fátt bendir til þess að breytist

Alþjóðabankinn telur að ört stækkandi millistétt í ríkjum eins og Kína, Indlandi og Brasilíu verði til þess að halda eftirspurn eftir vörum og þjónustu upp í heiminum á næstu áratugum og fjölgun í henni hafi meðal annars þær pólitísku afleiðingar í þessum ríkjum að krafan um aukið frjálsræði í viðskiptum verði háværari.

En þessi þróun nær ekki eingöngu til stjórnmálaástandsins í þróunarríkjunum því að uppgangur þeirra mun í auknu mæli veikja stöðu ófaglærðra verkamanna á Vesturlöndum. Slík þróun gæti grafið undan framtíðarhorfum alþjóðavæðingar hagkerfa heimsins enda vara skýrsluhöfundar sérstaklega við því að á sama tíma og bilið milli sumra þróunarríkja og Vesturlanda minnkar þá er líklegt að ójöfnuður vaxi innan hvers þjóðfélags. Einstaklingar hagnast misvel á alþjóðavæðingunni og eigi að tryggja framgang hennar þurfa stjórnmálamenn að reyna sætta þau öfl sem grafa undan henni.