Greiningardeildir Arion og Íslandsbanka spá ennþá óbreyttum stýrivöxtum. Greiningardeildirnar gáfu út skýrslur í dag í kjölfar niðurstaðna Hagstofunnar um hagvöxt á árinu, sem mældist 4,5% á fyrstu níu mánuðum þess.

Peningastefnunefnd Seðlabankans kynnir niðurstöður sínar um hvort stýrivöxtum verði breytt á morgun.

Hagvöxtur á þriðja fjórðungi jókst um 2,6% og var einkum dreginn áfram af fjárfestingu, sem jókst um 5%, og einkaneyslu sem jókst um 4,3%.

Í skýrslu Íslandsbanka segir meðal annars:

Hagvöxtur mældist 4,5% á fyrstu níu mánuðum þessa árs sem telst nokkuð hraður hagvöxtur. Er vöxturinn í góðu samræmi við spá okkar og Seðlabankans en spá okkar hljóðar upp á 4,3% fyrir árið í heild og spá Seðlabankans 4,6%.

Ofangreindar hagvaxtartölur eru í heild í góðu samræmi við spá Seðlabankans sem birt var samhliða síðustu vaxtaákvörðun bankans í nóvember. Við teljum því að tölurnar breyti ekki sýn peningastefnunefndar á þróun hagkerfisins svo neinu nemi.

Sama hljóðs gætir í skýrslu Arion banka, sem segir:

Þó er lítið um stórtíðindi í tölunum og breyta þær því ekki stýrivaxtaspá okkar, en Seðlabankinn kynnir vaxtaákvörðun í fyrramálið.