*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 12. apríl 2019 16:39

Spá fimmtungshækkun flugfargjalda

Á sama tíma og spáð er lækkun hagvaxtar og verðbólgu í viðskiptalöndum Íslands býst Landsbankinn við 3,2% verðbólgu hér.

Ritstjórn
Auk hækkunar á flugfargjöldum í undirlið verðbólguþróunar vegna tímasetningar páskanna er mikil óvissa vegna minna framboðs í kjölfar þess að Wow air flýgur ei meir.
Aðsend mynd

Landsbankinn spáir 3,2% verðbólgu í apríl eftir 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða. Mesta hækkunin er í undirliðnum flugfargjöld til útlanda, en skýringuna er þó helst að leita í tímasetningu páskanna eftir verðkönnunarviku Hagstofunnar.

Einnig hefur bankinn bent á aukna svartsýni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á hagvaxtarþróun í helstu viðskiptalöndum Íslands, sem færði nýlega hagsvaxtarspá fyrir meðaltal 14 stærstu viðskiptalandanna úr 1,8% niður í 1,4%. Mest áhrif hefur þar lækkun á spá fyrir evrusvæðið, sem vegur um 41% af utanríkisviðskiptum landsins, en spáin fyrir það er lækkuð úr 1,9% niður í 1,3%. Jafnframt hefur verðbólguspá fyrir svæðið verið lækkuð úr 2% í 1,6%.

Hagstofan í sérstakri stöðu

Til viðbótar við spá um hækkun á undirlið flugfargjalda vegna tímasetningar páskanna nefnir bankinn mikla óvissu á verðþróun flugfargjalda vegna falls Wow air. Inn í mælinguna nú ættu nefnilega að koma flug sem keypt voru í febrúar og mars en flogin í apríl, þar með talið hjá flugfélaginu fallna.

„Hagstofan er í þeirri mjög svo sérstöku stöðu að vera með verðmælingar á flugi sem ekki verður flogið vegna gjaldþrots WOW air. Það er alls óvíst hvernig Hagstofan mun snúa sér í þessu og þá hvort að einungis verði miðað við verð á keyptum flugmiðum af Icelandair,“ segir í verðbólguspánni.

Þar er bent á að síðustu ár hafi flugfargjöld lækkað mikið, en að meðaltali hafi verið 12,8% ódýrara að fljúga til útlanda á síðasta ári en 2017 og 15,5% ódýrara 2017 heldur en 2016. Nú megi vænta að þessi verðþróun gangi til baka vegna minni samkeppni.

Aðrar hækkanir eru 2,3% hækkun á bensín og dísilolíu, samkvæmt verðkönnun bankans, en einnig býst hann við smávægilegri hækkun á reiknaðri húsaleigu.

Hins vegar lækkar bæði reiknuð húsaleiga, matarkarfan og kaup ökutækja. Aðrir óvissuþættir í spánni eru svo hvort þeir kjarasamningar sem hafi verið skrifað undir verði samþykktir og hvort aðrir muni fylgja sömu forskrift. Jafnframt sé óvissa um gengi krónunnar vegna minna innflæðis gjaldeyris í sumar, og svo á húsnæðisverði vegna aukins framboðs.