Jarðhitateymi Íslandsbanka hefur gefið út sína árlegu skýrslu um bandaríska jarðhitamarkaðinn. Í skýrslunni er fjallað um áframhaldandi vöxt jarðhitamarkaðarins í Bandaríkjunum og þær áskoranir sem framundan eru á þeim markaði.

Bandaríkin eru stærsti aðilinn í heiminum þegar kemur að raforkuframleiðslugetu með jarðhita. Heildarraforkuframleiðslugeta Bandaríkjanna er 3.102 MW, einn þriðji af raforkuframleiðslugetu í heiminum. Raforkuframleiðsla með jarðhita er hins vegar lítill hluti af heildarraforkuframleiðslu Bandaríkjanna eða um 0,4%.

Það eru 170 staðfest jarðhitaverkefni á hinum ýmsu verkefnastigum í Bandaríkjunum. Þessi verkefni geta mögulega aukið raforkuframleiðslu með jarðhita um 3.633 – 4.050 MW. Kalifornía er stærsta fylkið þegar kemur að raforkuframleiðslu með jarðhita með 2.566 MW. Tvö stærstu fylkin, Kalifornía og Nevada, ráða yfir 97% af raforkuframleiðslu með jarðhita í Bandaríkjunum.

Íslandsbanki spáir 1.227 – 1.369 MW framleiðsluaukningu með jarðhita á næstu fimm árum í Bandaríkjunum. Til þess að sú aukning verði að veruleika er þörf á fjárfestingu upp á rúma 12 milljarða bandaríkja dollara.

Verið er að kynna skýrsluna á alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu í San Diego í Kaliforníu. Ráðstefnan er skipulögð af stærstu jarðhitasamtökunum í Bandaríkjunum og er sú fjölmennasta í iðnaðinum. Búist er við að um 2.500 manns sæki ráðstefnuna.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka kemur fram að hjá bankanum starfi hópur sérfræðinga sem einbeiti sér að jarðhita. Hópurinn er hluti af Fyrirtækjasviði og er ábyrgur fyrir samskiptum og þjónustu við innlend og erlend jarðhitafyrirtæki, ásamt útgáfu greininga og skýrslna.

Hægt er að nálgast skýrsluna á heimasíðu jarðhitateymis Íslandsbanka: www.islandsbanki.is/energy