Verðbólga mun aukast jafnt og þétt fram að áramótum, fara í 4,5% í næsta mánuði og mælast 4,7% á síðasta ársfjórðungi, að mati Greiningar Íslandsbanka. Þetta er 0,2% minna en verðbólguspá Seðlabankans hljóðar upp á.

Greiningardeildin bendir á það í umfjöllun sinni um nýjustu verðbólgutölur Hagstofunnar í Morgunkorni dagsins, að rétt sé að halda því til haga að þegar Seðlabankinn vann að síðustu verðbólguspá sinni var almennt búist við meiri verðbólgu á þriðja ársfjórðungi en raunin varð. Verðbólgan mælist t.d. lægri nú en þegar peningastefnunefnd tók síðast ákvörðun um vexti. Bæði nefndin og Greining Íslandsbanka reikna þá með að hún aukist á ný fyrir árslok.

Greining Íslandsbanka segir að verðbólga hafi reynst þrálát, mikil og talsvert umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans undanfarið. Af þeim sökum gerir deildin ráð fyrir því að Seðlabankinn muni bregðast við með frekari hækkun stýrivaxta á næstunni. Spáir deildin því að stýrivextir Seðlabankans verði 6,4% að meðaltali á næsta ári og 6,7% árið 2014 samanborið við 5,4% í ár.