Hagfræðideild Landsbankans telur sennilegra að stýrivextir Seðlabankans verði lækkaðir á næsta fundi peningastefnunefndar heldur en að þeir verði óbreyttir. Næsta ákvörðun verður tilkynnt næstkomandi miðvikudag, það er 26. júní. Þetta kemur fram í hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Á síðasta fundi peningastefnunefndar, í maí síðastliðnum, var tekin ákvörðun um að lækka stýrivexti um 0,5 prósentustig. Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir því að vextir verði lækkaðir alls um eitt prósentustig til viðbótar en þær lækkanir verði framkvæmdar í þrepum á næstu misserum.

„Við teljum að það sem helst muni hafa áhrif á kvörðunina nú sé annars vegar veiking krónunnar, sem dregur heldur úr líkum á vaxtalækkun, og hins vegar lækkun verðbólguvæntinga fyrirtækja, sem styður við að næsta skref í lækkun vaxta verði tekið. Þessir tveir þættir munu vegast á en við teljum að lækkun verðbólguvæntinga í átt að markmiði muni vega þyngra,“ segir í spánni.

Þykknað hefur yfir hagkerfinu undanfarið og gera spár nú ráð fyrir samdrætti í ár en að þjóðarbúið muni rétta úr kútnum strax á næsta ári. Í hagsjánni nú er vikið að því að nefndinni sé umhugað að „dýpka [hvorki] né lengja fyrirséðan samdrátt í hagkerfinu með því ða draga ekki nægilega mikið úr aðhaldi peningastefnunnar“.

Frá síðasta fundi nefndarinnar hefur krónan veikst um rúmlega 2% og dregur það úr líkum á því að vextir lækki nú að mati hagfræðideildarinnar. Eftirgjöf í verði krónunnar undanfarnar tvær vikur gefi vísbendingu um að fall Wow og loðnubrestur hafi ekki verið að fullu komnir fram í gengi gjaldmiðilsins.

„Frá því nefndin tilkynnti vaxtaákvörðun maímánaðar hafa birst þjóðhagsreikningar fyrir fyrsta ársfjórðung ársins. Seðlabankinn spáir einungis fyrir um hagvöxt milli ára en ekki niður á fjórðunga og er því ekki einfalt að sjá hvort þjóðhagsreikningar á fyrsta fjórðungi hafi komið Seðlabankanum sérstaklega á óvart,“ segir í hagsjánni. Niðurstaða þjóðhagsreikninga sé því ólíkleg til að hafa áhrif, hvorki letjandi né hvetjandi.