Greining Glitnis telur að enn eigi eftir að koma fram frekari samdráttur í innflutningstölum þar sem fjárfesting er nú í algeru lágmarki, sem og kaup heimilanna á bílum og varanlegum neysluvörum.

Hagstofan birti í morgun tölur yfir vöruskipti sem sýndu 2,5 milljarðas króna afgang í nóvember.

Greining Glitnis bendir á að olíuverð hefur lækkað verulega á síðustu mánuðum á heimsmarkaði, sem og verð á hráefni til iðnaðarframleiðslu. Því eru allar líkur á að áfram verði talsverður afgangur af vöruskiptum þrátt fyrir verðlækkun á okkar helstu útflutningsafurðum.

Viðsnúningur í þjónustujöfnuði bætist svo við, þar sem stórlega hefur dregið úr ferðalögum Íslendinga erlendis eftir að kreppan hélt innreið sína á haustdögum. Afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði mun því veita krónunni nokkurn stuðning á næstunni, en meiri óvissa er um áhrif þáttatekjujafnaðar og þar með heildarflæði á gjaldeyrismarkaði vegna utanríkisviðskipta.

Þetta kom fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.