Greiningardeild Arion banka gerir ráð fyrir að tekjur Icelandair Group á fjórða ársfjórðungi (4F) síðasta árs  verði 20 milljarðar króna og að hagnaður félagsins eftir skatt (EBITDA) verði um 400 milljónir króna.

Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildarinnar en Icelandair Group mun í vikunni birta afkomu sína fyrir fjórða ársfjórðung og um leið árið í heild. Fyrsti og fjórði ársfjórðungur eru ávallt lökustu fjórðungarnir hjá félaginu bæði hvað veltu og afkomu varðar. Miðað við flutningstölur félagsins á 4F 2011 má gera ráð fyrir töluverðum tekjuvexti frá fyrra ári.

Í markaðspunktunum kemur fram að skv. afkomuspá stjórnenda Icelandair Group frá nóvember síðastliðnum sé gert ráð fyrir að EBITDA félagsins á fjórða ársfjórðungi verði lítil sem engin eða neikvæð um allt að 500 milljónir króna, sem skilar sér í 10 – 10,5 milljarða króna EBITDA framlegð fyrir árið 2011 í heild. Spá greiningardeildar er lítillega hærri en hún gerir ráð fyrir EBITDA upp á um 11 milljarða króna árið 2011.

Í morgun tilkynnti Icelandair Group um sölu á dótturfélaginu Smartlynx í Lettlandi. Salan er bókfærð á seinasta ári og hefur jákvæð áhrif á afkomu félagsins að fjárhæð 1,1 milljarð króna. Félagið tilkynnti líka fyrir helgi að frá og með fyrsta ársfjórðungi 2012 verður uppgjörsmynt þess bandarískur dollar og að félagið hafi endurvakið viðbótarskráningarferlið í kauphöllina í Osló.

Greiningardeild Arion gerir ráð fyrir töluverðum tekjuvexti á 4F hjá Icelandair Group en flutningstölur sýna um 11% vöxt hvað varðar fjölda farþega hjá Icelandair frá sama ársfjórðungi í fyrra. Icelandair flutti um 350 þúsund farþega á 4F 2011 samanborið við 315 þúsund árið áður. Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá flugu tæplega 1,75 milljónir farþegar með félaginu á árinu 2011 sem er um 18% aukning frá fyrra ári. Síðasta metár félagsins var árið 2007 en þá flugu um 1,6 milljónir manna með félaginu.

Þá hefur Icelandair kynnt aukin umsvif á árinu og að framboð félagsins á flugi muni aukast um 14%. Þá verður að öllu óbreyttu tveimur nýjum vélum bætt í flota félagsins í sumar (þær eru núna 14 en verða 16) auk þess sem nýjum áfangastað, Denver í Colarado, hefur verið bætt við í leiðarkerfi félagsins. Greiningardeild Arion er þó hæfilega bjartsýn á að þessar áætlanir félagsins nái fram að ganga og spáir 7,5% tekjuvexti hjá Icelandair Group á þessu ári.