*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 14. maí 2021 10:00

Spáir hækkun stýrivaxta

Greiningardeild Íslandsbanka telur að stýrivextir Seðlabankans verði um einu prósentustigi hærri að ári liðnu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að stýrivextir Seðlabanka Íslands, SÍ, verði hækkaðir um 0,25 prósentustig við næstu vaxtaákvörðun þann 19. maí næstkomandi. Reynist það rétt færu meginvextir Seðlabankans upp í 1,0%, líkt og þeir voru frá mars og þar til í nóvember á síðasta ári.

Greiningardeildin bendir á að verðbólgan hafi reynst þrálátari en vænst var og kjölfesta hennar við markmið SÍ „gæti veikst ef bankinn sýnir ekki vilja sinn til þess að varðveita trúverðugleika peningastefnunnar í verki“.

Ekki sé þó útilokað að vöxtum verði haldið óbreyttum þar sem óvissa um efnahagsbata minnkað ásamt því að búið er að framlengja ýmis úrræði sem hjálpa fyrirtækjum og heimilum. Einnig minnist greiningardeildin á að enginn nefndarmaður peningastefnunefndar tjáði sig um þann möguleika að hækka stýrivexti við síðustu ákvörðun í mars síðastliðnum.  

„En skjótt skipast veður í lofti og þykir okkur sennilegra en ekki að nefndin kjósi nú að minna á þann ásetning sinn að halda verðbólgu í skefjum með þeim ráðum sem hún hefur tiltæk. Verði vextir ekki hækkaðir að þessu sinni má í það minnsta búast við því að tónninn um framhaldið verði skerptur á þann veg að brugðist verði við verðbólgu sem er talvert yfir markmiði bankans um leið og efnahagsaðstæður leyfa,“ segir í greiningu Íslandsbanka.

Hertari reglur um fasteignalán samhliða vaxtahækkun

Greiningardeildin telur að samhliða vaxtaákvörðuninni, eða fljótlega í kjölfarið, verði hert á reglum um takmarkanir á fasteignalánum, sem hljóða nú upp á að almennt megi ekki lána hærra hlutfall af markaðsverði fasteignar en 85%. Fjármálastöðugleikanefnd bankans hefur heimild til að lækka það hlutfall.  

„Það skyti hins vegar skökku við ef eingöngu ætti að beita þessum tækjum til að kæla verðbólguþrýsting þar sem tilgangur þeirra er fyrst og fremst að varðveita fjármálastöðugleika. Samspil þeirra við hærra vaxtastig er því heppilegra til þess að kæla íbúðamarkað við núverandi aðstæður.“

Greiningardeildin telur að Seðlabankinn muni ekki hækka stýrivexti frekar fyrr en bati efnahagslífsins er kominn á umtalsvert skrið. Á síðasta fjórðungi ársins hefji hann þó vaxtahækkunarferli þar sem vextir hækki um 0,25 prósentur í hverjum mánuði og verði í kringum 1,75% í maí 2021.