Uppgjör Vodafone er varnarsigur eftir erfitt uppgjör á fyrsta ársfjórðungi, að sögn Greiningar Íslandsbanka sem bendir á að mikilvægasta verkefni stjórnenda félagsins á næstu misserum sé stjórnun kostnaðarverðs seldra vara og rekstrarkostnaður. Ljóst sé að hann sé orðinn nokkuð þétt setinn bekkurinn af þeim sem ætla sér að bjóða farsímaþjónustu hér á landi á næstu árum. Mikil og hörð samkeppni sé framundan.

Greiningin bendir á það í umfjöllun sinni um uppgjörið í Morgunkorninu í dag að framlegð Vodafone hafi dregist saman um 7% sem nemur 732 milljónum króna. Afskriftaþörf félags á borð við Vodafone sé mikil og því sé EBIT-hagnaður ein mikilvægasta rekstrarstærðin  þar sem gjaldfærðar afskriftir eru meðtaldar. Sú rekstrarstærð nam 378 milljónum króna fyrir ársfjórðunginn og jókst um 29% frá í fyrra.

Svo segir Greining Íslandsbanka:

„Framlegðarhlutföll hafa hækkað og eru komin í meira samræmi við meðaltöl síðustu missera. Þó gildir nákvæmlega sama regla er kemur að hlutabréfaeign, bæði þegar hlutir ganga vel og þegar þeir ganga illa, að sveiflur í hlutabréfaverði sem og sveiflur í rekstrarafkomu eru óumflýjanlegar. Það er ástæða þess að mun hærri ávöxtunarkrafa er gerð til slíkra eigna en til skuldabréfa. Það að mikil sveifla sé í afkomu á afmörkuðu 90 daga uppgjörstímabili er eitt og sér ekki annað en vísbending um stöðu reksturs viðkomandi félagsins á ákveðnu tímapunkti.“