Gengi krónunnar verður hátt áfram út þetta ár og á næsta ári segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Greining Íslandsbanka telur að mikill munur innlendra og erlendra vaxta ásamt horfum í efnahagsmálum mun áfram hvetja til stöðutöku með krónunni. Ólíklegt er að krónan muni lækka svo miklu nemi fyrr en undir lok næsta árs og fram á árið 2007. Mikill viðskiptahalli grefur þá undan styrk krónunnar.

"Við teljum að gengisvísitalan muni sveiflast á bilinu 105 til 115 stig það sem eftir er árs en nú stendur hún í 112,5 stigum. Gengisvísitalan mun að okkar mati fara yfir 120 stig á síðari hluta næsta árs sem er ríflega 6% lækkun frá núverandi gildi. Krónan mun veikjast frekar á árinu 2007 eða um tæplega 8% og vísitalan fer yfir 130 stig. Gengið mun síðan leita jafnvægis í lok árs 2007 í vísitölugildinu 130 til 135," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Seðlabankinn mun að líkindum hækka stýrivexti sína um 0,25 til 0,5 prósentustig samhliða útgáfu Peningamála föstudaginn 3. júní næstkomandi. Stýrivextir bankans standa nú í 9% en líklegt er að bankinn muni hækka vexti sína upp í 10% fyrir árslok. Hærra fer bankinn sennilega ekki með vexti sína nema ef gengi krónunnar tekur að falla á tímapunkti sem ekki er bankanum þóknanlegur m.t.t. þenslu. Gengi krónunnar mun sennilega hækka eða standa nánast í stað næstu daga fram að útgáfunni segir í Morgunkorninu.