Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% í ágúst frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá eykst verðbólga úr 1,8% í 1,9% í ágúst. Þegar litið er til verðbólguhorfur til meðallangs tíma vegast á forsendur um lægra gengi krónu annars vegar, og um hægari hækkun húsnæðisverðs hins vegar. Er nú útlit fyrir að verðbólga verði við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands um áramótin og aukist jafnt og þétt og verði að jafnaði rétt um 3% út árið 2019. Hægt er að lesa greiningu Íslandsbanka hér.

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni heldur aukast næstu mánuðina að mati Greiningar Íslandsbanka. Greiningaraðilar spá 0,4% hækkun VNV í september, 0,2% hækkun í október, 0,2% hækkun í nóvember og 0,3% hækkun í desember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,5% í árslok.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar vísitölu neysluverðs á tímabilinu, eða 0,2% í mánuði hverjum að jafnaði. Áhrif útsöluloka munu svo lita septembermælingu VNV. „Þá gerum við ráð fyrir nokkurri árstíðarbundinni lækkun flugfargjalda í september. Áhrif af gengislækkun krónu frá júníbyrjun munu svo koma fram í verðhækkun ýmissa innfluttra vara á komandi mánuðum,“ er einnig tekið fram í greiningunni.