Greiningardeild Íslandsbanka reiknar með því að verðbólgan muni hjaðna nokkuð hratt á næstu mánuðum þegar áhrifa af hækkun gengis krónunnar undanfarið fer að gæta. "Spáum við því að verðbólgan verði komin niður fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans um mitt þetta ár og að yfir árið verði verðbólgan 2,1%. Er það lítil verðbólga og næstum helmingi minni en árið 2004," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

"Gangi þetta eftir er um markverðan árangur í hagstjórn að ræða. Honum er hins vegar náð með aðhaldssamri peningastjórnun fremur en aðhaldi í opinberum fjármálum. Árangurinn er ekki án fórna. Háir stýrivextir og væntingar um frekari hækkun þeirra er grunnur sterkrar krónu um þessar mundir. Verðbólgumarkmiðinu er þannig náð með því að lækka verð innfluttrar vöru og veikja stöðu þeirra innlendu fyrirtækja sem helst keppa við erlend. Hliðarverkanirnar eru því aukinn viðskiptahalli og ruðningsáhrif," segir í Morgunkorninu.

Verðbólguspáin byggir meðal annars á forsendu um óbreytt gengi krónunnar (113,1). Eins og áður sagði er gengi krónunnar hátt um þessar mundir og reiknum við með því að svo verði áfram á þessu ári. Einhver lækkun kann þó að verða á krónunni og verður að skoða verðbólguspána í því ljósi. Hætta á meiri verðbólga en hér er spáð felst einnig í miklum hækkunum húsnæðisverðs sem hugsanlega kunna að aukast enn frekar á næstunni.

Þegar áhrifa af hækkun krónunnar fjara út og gæta tekur aukinna áhrifa mikillar innlendrar eftirspurnar má reikna með því að verðbólgan taki við sér á ný. Þannig reiknum við með 3,3% verðbólgu yfir árið 2006. Frekari upplýsingar um verðbólguhorfur má finna hér.

Verðbólgan er mikil um þessar mundir. Mælist hún nú 3,9% sem er meira en almennt er talið að samrýmist stöðugleika í verðlagsmálum. Verðbólgan er yfir því sem gengur og gerist í þeim ríkjum sem við viljum helst bera okkur saman við. Verðbólgan á sér ekki síst rætur í miklum vexti innlendrar eftirspurnar. Hækkun á húsnæðisverði skýrir þannig stóran hluta verðbólgunnar sem og almennar innlendar kostnaðarverðshækkanir.