*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 15. júní 2018 11:35

Spá Íslandi upp úr riðlinum

Greiningardeild Arion banka spáir því að Ísland komist í 16 liða úrslit.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Greiningardeild Arion banka spáir því að Ísland komist upp úr D riðli og í 16 liða úrslit, þetta kemur fram í markaðspunktum dagsins. 

Fyrsti leikur HM fór fram í gær þar sem Rússland mætti Saudi-Arabíu og mun Ísland keppa sinn fyrsta leik á morgun. 

Í dag situr Ísland í 22. sæti á styrkleikalista FIFA en landsliði sat í 35. sæti þegar flautað var til leiks á Evrópumótinu árið 2016. 

Mælikvarði sem notaður er til að meta styrkleika er svokallaður ELO mælikvarði kenndur við eðlisfræðinginn Arpad Elo. Fram kemur að á ELO mælikvarða sé sá riðill sem Ísland er í, flokkaður sem meðalerfiður.

Einnig kemur fram að spálíkan Goldman Sachs gefur til kynna að Ísland muni ekki komast upp úr riðlinum. Bankinn hefur gefið út spá um sigurvegara síðustu fimm heimsmeistaramóta með misgóðum árangri. Greiningardeild Arion telur að þrátt fyrir að spá Goldman gefi til kynna að Ísland muni ekki komast upp úr riðlinum þá sé það mat deildarinnar að margt bendi til þess að niðurstaðan verði önnur og nefnir reynslu liðsins í því samhengi.