Greiningardeild Arion banka væntir þess að seinni helmingur ársins verði ekki síðri en sá fyrri, og jafnvel betri hagvaxtarlega séð.

Spá þeir að hagkerfið vaxi um 5,7% á síðari helmingi ársins, en heildarspá þeirra fyrir árið sem þeir uppfærðu í júlí gerir ráð fyrir 4,9% hagvexti.

Metframboð á flugi til landsins

Gera þeir þar ráð fyrir að útflutningur eigi inni nokkurn vöxt sem og að stærsta ferðamannatímabilið fellur inn á þriðja ársfjórðung, en auk þess verður metframboð af flugi til landsins á síðasta ársfjórðungi ársins.

Greiningardeildin vanáætlaði vöxt útflutnings eilítið í spám sínum um fyrri helming ársins, en þeir bjuggust við 4,5% vexti, en hann var 5,3%. Nokkru meira munar þegar kemur að innflutningi, en hann jókst um 16,2% á fyrsta ársfjórðungi, svo framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar var því neikvætt þriðja ársfjórðunginn í röð.

Árið 2015 endurmetið

Bráðabirgðatölur Hagstofunnar fyrir árið 2015 gerðu ráð fyrir að hagvöxtur ársins hefði verið 4,0% en nú hefur hagstofan endurmetið árið og mælir hann sem 4,2%.

Ársfjórðungurinn sem nú er að líða var sterkast ársfjórðungurinn síðan 2008 út frá þjóðarútgjöldum, jókst einkaneysla um 8,2%, fjárfesting um 31,2%, þjóðarútgjöld jukust um 9,7% og fjárfestingarhlutfallið var 22,6%. Segja þeir viðlíka tölur ekki hafa sést síðan 2008. Samt sem áður var hagvöxturinn á ársfjórðungnum ekki alveg jafnmikill og á fyrsta ársfjórðungi ársins.