Greining Íslandsbanka spáir að á þessu ári verði fjöldi erlendra ferðamanna sem komi til landsins 1.760 þúsund en á næsta ári verði fjöldinn 2.370 þúsund, eða ríflega sjöfaldur íbúafjöldi í landinu.

Framboðsaukning stæða á Keflavíkurflugvelli

Gerir spáin ráð fyrir að aukning erlendra ferðamanna á næsta ári verði 35% ofan á 39% aukningu á þessu ári. Byggir spáin á því að nýtingarhlutfall framboðinna stæða á Keflavíkurflugvelli haldist, en aukningin á tímabilinu 1. nóvember 2016 til 25. mars 2017 verður 58% á ársgrundvelli.

Ef horft er á úthlutuð stæði samkvæmt gögnum Isavia þá verður aukningin í janúar á næsta ári miðað við sama tímabil árið á undan 70%, en yfir vetrartímabilið 2015-2016 var lítill munur á úthlutuðum stæðum og raunframboði. Býst Isavia við að farþegum muni fjölga um 50% á tímabilinu, byggt á áætlaðri sætanýtingu síðustu 5 ára.

43 þúsund ferðamenn á degi hverjum

Gerir spáin því ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi um 620 þúsund milli áranna 2016 og 2017, og ef litið er til meðaldvalartíma ferðamanna á landinu þá má gera ráð fyrir að um 43 þúsund ferðamenn gisti á landinu að jafnaði á degi hverjum á næsta ári. Verður fjöldinn þó hlutfallslega meiri yfir sumarmánuðina, en vetrarmánuðina, en árstíðasveiflan fari þó minnkandi.

Gera áætlanir greiningar Íslandsbanka að hótelherbergjum muni fjölga meira á næsta ári en þessu ári, en þrátt fyrir það muni aukningin ekki duga til að taka við þessum fjölda, heldur verði deilihagkerfið að taka við talsvert stórum hluta þessa vaxtar.

Einn af óvissuþáttum í greiningunni telja þeir þó vera gengisþróun, en sjá má að gengislækkun heimamynta Breta og Norðmanna sýni að dregið hefur úr vexti breskra ferðamanna hingað til lands á síðustu mánuðum og samdráttur hefur verið í fjölda norskra ferðamanna.