Greinendur spá því að hagvöxtur verði innan við 1% á evrusvæðinu á næsta ári. Samkvæmt könnun Financial Times meðal 34 greiningarfyrirtækja dregst hagvöxtur á evrusvæðinu saman á næsta ári, þriðja árið í röð. Niðurstöður könnunarinnar er svartsýnni en spá Evrópska seðlabankans, sem spáir 1,1% hagvexti á næsta ári og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem spáir 1,4% hagvexti á næsta ári.

Hagvöxtur á evrusvæðinu var 1,2% á þessu ári, 1,8% árið 2018, og 2,4% árið 2017.

FT gerði sambærilega könnun fyrir ári. Þá var hagvexti ofspáð lítillega. Búist er við að hann verði 1,2% á evrusvæðinu á þessu ári en greinendurnir spáðu 1,4% hagvexti. Þeir spáðu hins vegar rétt fyrir um að þýskur iðnaður myndi eiga erfitt uppdráttar vegna óvissu í heimshagkerfinu, sér í lagi vegna viðskiptastríðs Bandaríkjanna og Kína, sem og að franskt hagkerfi myndi rétta úr kútnum.

Greinendur sjá fátt sem geti komið hagvexti á svæðinu í gang. Evrópski seðlabankinn tilkynnti um nýjar örvunaraðgerðir í september. Talið er ólíklegt að seðlabankinn geti gengið mikið lengri, enda vextir orðnir neikvæðir víðast hvar í álfunni. Þá er talið ólíklegt að Þjóðverjar, sem eru í lykilstöðu innan evrusvæðisins, séu tilbúnir að fallast á verulegar örvunaraðgerðir í ríkisfjármálum. Þetta kemur ofan í áframhaldandi óvissu í heimsbúskapnum, sér í lagi varðandi viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kínverja og útfærslu á útgöngu Breta úr ESB.

Því sjá greinendur fá merki þess að hagvöxtur taki verulega við sér á ný. Greinendurnir spá frá 0% hagvexti og upp í 1,5% hagvöxt á næsta ári.