*

miðvikudagur, 27. maí 2020
Innlent 20. maí 2019 13:15

Spá lækkun stýrivaxta

Greiningardeildir bankanna spá allar stýrivaxtalækkun. Jafnframt hafa þeir Már Guðmundson og Gylfi Zöega gefið lækkun í skyn.

Magdalena A. Torfadóttir
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri.
Haraldur Guðjónsson

Greiningardeildir bankanna spá allar að stýrivextir verði lækkaðir á fundi peningastefnunefndar sem fer fram á miðvikudaginn næstkomandi. Þær eru þó ekki sammála um hversu mikil lækkunin verði.

Greiningardeild Íslandsbanka spáir 25 punkta lækkun en vill þó ekki útiloka að hún geti orðið 50 punkta. Ástæður að baki væntanlegri lækkun eru sagðar vera batnandi verðbólguhorfur og lækkun verðbólguálags á markaði. Þá segir jafnframt í spánni að efnahagshorfur til skamms tíma hafi versnað talsvert og frekari stýrivaxtalækkanir á komandi mánuðum séu líklegar.

Greiningardeild Arion banka spáir að stýrivextir muni lækka um 50 punkta og muni stýrivextir því nema 4%. Í spánni segir að nýr efnahagslegur veruleiki blasi nú við, til að mynda eftir fall WOW air og nýja kjarasamninga og kalli sá veruleiki á lækkun stýrivaxta. Þá kemur fram í spánni að að öllum líkindum verði nefndarmenn peningastefnunefndar ekki sammála um lækkunina.

Hagfræðideild Landsbankans spáir 25 punkta lækkun líkt og Íslandsbanki. Í spánni segir að það sem komi líklega í veg fyrir myndarlegri lækkun sé sú staðreynd að verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja séu talsvert hærri heldur en verðbólgumarkmiðið.

Nýverið ritaði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, aðsenda grein í Morgunblaðið þar sem hann sagði að töluverðar líkur séu á lækkun vaxta. Gylfi Zoega sagði í þættinum Silfur Egils þann 31. mars síðastliðinn að í fyrsta sinn væri Seðlabankinn í þeirri stöðu að lækka vexti verði niðursveifla í kjölfar falls WOW air.