Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs (VNV) þriðjudaginn 29. janúar. Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,5% lækkun vísitölunnar milli mánaða. Gangi spáin eftir lækkar ársverðbólgan úr 3,7% í 3,3%. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Vísitalan hækkaði um 0,75% í desember, en opinberar spár lágu á bilinu +0,5% til +0,8%. Hagfræðideildin spáði 0,6% hækkun.

Bráðabirgðaspá hagfræðideildar til næstu þriggja mánaða er eftirfarandi:

  • Feb.: +0,6% milli mánaða, 3,3% ársverðbólga.
  • Mar.: +0,5% milli mánaða, 3,2% ársverðbólga.
  • Apr.: +0,1% milli mánaða, 3,3% ársverðbólga.

Eins og oft áður er töluvert mikil óvissa um þróun verðbólgu næstu mánuði. Í því sambandi nefnir hagfræðideild nokkur atriði sem vert er að fylgjast sérstaklega með núna.

Aukin harka í kjaramálum

Aukin harka virðist vera að myndast í kjaramálum og ljóst að einhver stéttarfélög gætu farið að undirbúa verkfallsaðgerðir á næstu vikum fari ekki að nást árangur við gerð kjarasamninga. Viðræður atvinnurekenda eru hins vegar í gangi við marga aðra hópa þannig að staðan er óljós. Það er ólíklegt að mikið svigrúm sé hjá atvinnurekendum til að koma í veg fyrir að miklar launahækkanir smitast út í verðlag að þessu sinni.

Seðlabankinn virkur á gjaldeyrismarkaði

Seðlabankinn er búinn að vera nokkuð virkur á gjaldeyrismarkaði upp á síðkastið. Yfirlýst stefna bankans með þessum aðgerðum er að sporna gegn spíralamyndun á gjaldeyrismarkaði sem hefði í för með sér óþarfa flökt á genginu. Ef vel tekst til ætti þetta að skila sér í meiri stöðugleika í verðbólgu.

Afnám hafta gæti haft áhrif

Nýlega samþykkti ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp um losun aflandskróna, en alls er um að ræða 84 ma.kr. Seðlabankinn er búinn að lýsa því yfir að hann ætli ekki að leyfa lausn þessa fortíðarvanda að valda því að gengi krónunnar lækki núna. Í lok árs 2018 var gjaldeyrisforði Seðlabankans 770 ma.kr. þannig að það er ljóst að hann hefur verulegt bolmagn til þess, en það á eftir að koma í ljós hversu vel tekst til.

Verðbólgan orðin almennari

Síðasta sumar var fjöldi undirliða sem höfðu lækkað á tólf mánaða tímabili lítillega fleiri en þeirra sem höfðu hækkað. Í síðustu mælingu Hagstofunnar frá því í desember höfðu hins vegar 83% undirliða hækkað, en einungis 15% lækkað. Það er því ljóst að verðbólgan er orðin mjög almenn. Það er eðli verðbólgu að hún á það til að nærast á sjálfri sér ef henni er gefinn laus taumur.

Óvissa í þróun fasteignaverðs og olíu

Þessu til viðbótar má benda á að töluvert mikil óvissa ríkir um verðbreytingar á innlendum fasteignamarkaði til næstu mánaða og breytingar á heimsmarkaðsverði olíu. Báðir þættir og sérstaklega sé fyrri hefur umtalsvert mikil áhrif á verðbólguþróun.