Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni lækka um 0,5% í janúar frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá hjaðnar 12 mánaða verðbólga úr 1,9% í 1,8%.

„Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa batnað lítillega á heildina litið frá síðustu spá. Ástæðurnar eru grunnáhrif og heldur hægari hækkun íbúðaverðs á spátímanum. Eftir sem áður eru horfur á að verðbólga verði í grennd við markmið Seðlabankans út árið 2019. Hagstofan birtir VNV fyrir janúar kl.9 þann 29. þessa mánaðar,“ segir í greiningu bankans.

Þá segir einnig að í janúarmælingu á vísitölu neysluverðs vegist ávallt á tveir þættir. Annars vegar komi fram lækkunaráhrif vegna útsala. Hins vegar eru í ársbyrjun hækkunaráhrif vegna hækkunar gjaldskráa veitna, hækkunar krónutöluskatta og endurskoðunar á verðskrám ýmissa þjónustuaðila. Greiningin telur að fyrrnefndu áhrifin vegi töluvert þyngra að þessu sinni, enda hafi hækkun veitugjalda og krónutölugjalda verið með hóflegra móti um nýliðin áramót.