Hagfræðideild Landsbankans birti á miðvikudag nýja hagspá fyrir árin 2019-2022. Gerir deildin ráð fyrir að verg landsframleiðsla dragist saman um 0,4% á þessu ári en að horfur séu á hóflegum efnahagsbata á næstu árum og spáir deildin að hagvöxtur á næsta ári verði 2%, 2,2% árið 2021 og 2,6% árið 2022. Spáin fyrir árið í ár er einu prósentustigi hærra en í spá bankans frá því í maí en aftur á móti lækkar hagvaxtarspá fyrir árið 2020 um hálft prósentustig og fyrir árið 2021 um 0,7% prósentustig.

Óhætt er að segja að hagkerfið hafi tekið hressilega við sér á síðustu átta árum en hagvöxtur á tímabilinu hefur verið um 3,8% að meðaltali á ári. Að mati hagfræðideildarinnar markar árið í ár því tímamót þar sem útlit er fyrir að hagvaxtarskeiðið sé á enda. Þá er jafnframt bent á að samkvæmt nýjustu efnahagsgreiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé útlit fyrir að hægja muni á hagvexti í um 90% af hagkerfum heimsins á árinu. Samdrátturinn hér á landi sé því hluti af kólnun efnahagsumsvifa í heiminum um þessar mundir.

Þá er jafnframt bent á að í hagsögu Íslands hefur lokum hagvaxtarskeiða oft fylgt erfið aðlögunartímabil vegna þess ójafnvægis sem hefur byggst upp á góðærisárunum á undan en því sé þó ekki þannig farið í þetta skiptið. Staða fyrirtækja og heimila er góð ef horft er til eigna og skuldsetningar, kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri, Staða ríkissjóðs er sterk auk þess sem Seðlabankinn hefur byggt upp mjög myndarlegan óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð. Þá sé einnig enn afgangur af utanríkisviðskiptum auk þess sem verðbólga hafi einungis aukist lítillega þrátt fyrir töluverða veikingu krónunnar samfara áföllum í ferðaþjónustu og sjávarútvegi.

Að mati hagfræðideildarinnar verður hóflegur efnahagsbati næstu ára studdur áfram af lágum en sjálfbærum vexti einkaneyslu, auknum opinberum fjárfestingum, vaxandi útflutningi og viðsnúningi í atvinnuvegafjárfestingu þegar fram í sækir. Aftur á móti er bent á að óvissa í spánni sé mikil, þá sérstaklega varðandi hagvaxtarhorfur sem snýr m.a. að óvissu um þróun í ferðaþjónustunni á næstu árum og þróun efnahagsmála í okkar helstu viðskiptalöndum.

AGS sker sig úr

Þegar litið er yfir þær hagvaxtaspár sem hafa verið birtar á síðustu misserum ber þeim nær öllum saman um að lítillegur samdráttur verið í hagkerfinu á yfirstandandi ári en hóflegur vöxtur muni svo taka við á nýjan leik. Ein spá sker sig þó úr en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir 0,8% hagvexti á árinu í spá sinni sem birt var fyrr í mánuðinum. AGS lækkaði þó hagvaxtarhorfur fyrir Ísland um 0,9 prósentustig frá spá sinni frá því í apríl. Að meðaltali gera greinendur ráð fyrir 0,2% samdrætti á árinu en sé spá AGS tekin út fyrir sviga er meðaltalið samdráttur upp á 0,4%. Á næsta ári gera greinendur ráð fyrir hagvexti á bilinu 1%–2,4% þar sem meðaltalið er 1,7% á meðan spár fyrir árið 2021 eru á bilinu 2,2%–2,8% þar sem meðaltalið er 2,5%.