Gengi krónunnar mun styrkjast lítillega á næstu tæpu þremur árum. Styrkingin er þó ekki mikil á þessum tíma, aðeins rétt rúm 4,5% frá síðustu áramótum til ársloka 2014, samkvæmt gengisspá Greiningar Íslandsbanka. Gangi það eftir fer gengisvísitalan úr 219 stigum um áramót í 209 í lok árs 2014.

Í gengisspá Greiningar Íslandsbanka er tekið fram að gengi krónunnar hafi lækkað það sem af er vetri líkt og fyrri spá hafi gert ráð fyrir í spá deildarinnar í nóvember í fyrra. Um árstíðabundna sveiflu sé að ræða vegna ferðamannagjaldeyris sem hafi tilhneigingju til að lækka gengi krónunnar yfir vetrarmánuðina en hækka yfir sumarið og fram á haust. Gengið hafi af þeim sökum náð hæsta gildi sínu innan ársins bæði í nóvember árið 2010 og aftur á sama tíma í fyrra. Lágmarkinu nái hins vegar í júlí rétt áður en ferðamannatíminn nái hámarki.

Hætta á gengislækkun

Í gengisspánni kemur fram að ólíkt þróun krónunnar hér innanlands þá hafi það verið að styrkjast á aflandsmarkaði síðan í nóvember í fyrra. Bent er á að evran hafi kostað 260 krónur á aflandsmarkaði þegar deildin hafi gefið út síðustu gengisspá sína í nóvember. Hún kostar nú 253 krónur og sýnist sem gengið þar og hér séu að leita nær hvort öðru. Munurinn er hins vegar enn umtalsverður, 90 krónur á evruna.

Greining Íslandsbanka segir muninn endurspegli hættu á umtalsverðri lækkun gengis krónunnar við afnám gjaldeyrishafta. Þó megi gera ráð fyrir því að með fleiri skrefum í afnámi hafta og viðsnúningi hagkerfisins megi vænta þess að aflandsgengi krónu styrkist frekar og færist nær gengisvísitölu krónunnar hér á landi.

Gengisspá Greiningar Íslandsbanka