Ólíklegt er að þau skilyrði sem kvittað var upp á í kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins (SA) og Alþýðusambands Íslands (ASÍ) í fyrra verði að veruleika. Eitt þeirra var að gengisvísitala krónunnar færi undir 190 stig í desember.

:etta segir í hagspá Hagstofunnar sem birt var í morgun. Þar er rifjað upp að SA og ASÍ hafi ákveðið að endurskoða ekki kjarasamninga þótt skilyrði fyrir sjálfkrafa framlengingu samninganna hefði ekki verið uppfyllt. Samningarnir eru uppsegjanlegir eftir næstu áramót ef forsendur um kaupmátt bresta.

Í hagspánni segir: „Að óbreyttum samningum verður kaupmáttaraukning lítil 2013, m.a. vegna þess að það ár er ekki gert ráð fyrir sérstakri vaxtaniðurgreiðslu né útgreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar. Aukin verðbólga og möguleg endurskoðun kjarasamninga eykur líkurnar á að laun hækki 2013 umfram það sem fólgið er í gildandi kjarasamningum og er nú gert ráð fyrir að launavísitala hækki 5,6% árið 2013.“