Arion banki spáir því að vísitala neysluverðs haldist óbreytt í maí og gangi það eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 3,3%. Kemur þetta fram í Markaðspunktum greiningardeildar bankans. Þar er bent á að gengi krónunnar hafi veikst um 2% frá því Hagstofa Íslands mældi verðlag í apríl og hélt sú veiking aftur af lækkunum í mælingu vísitölunnar í síðustu viku.

„Hins vegar mælist styrking krónunnar 7,5% frá hæsta gildi hennar frá því í lok janúar sem gefur söluaðilum svigrúm til lækkunar eins og sýndi sig á verði nýrra bíla, eldsneytis og matvöru í verðkönnun okkar fyrir maí,“ segir í Markaðspunktunum.

Greining Íslandsbanka er ekki fjarri Arion í sinni spá, en Íslandsbanki spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,1% í mánuðinum. Gangi þessi spá efvtir verður 12 mánaða verðbólgan einnig 3,3%, sem er minnsta ársverðbólga í tvö ár. Forsendur Íslandsbanka eru einnig svipaðar og hjá Arion banka og segir Greiningin að útlit sé fyrir að gengi krónunnar verði á svipuðu róli næstu mánuði, enda hafi Seðlabankinn lýst þeirri ætlan sinni að stýra gengi krónu á næstunni með beinni hætti en áður með inngripum á gjaldeyrismarkaði.

„Styrkingin hefur þegar komið fram að nokkru leyti í lækkandi verði innfluttra vara og eldsneytis, en við teljum að frekari styrkingaráhrif muni koma fram í vöruverði í maí og júní.“