Greiningardeildir Íslandsbanka og Arion banka hafa birt verðlagsspár sínar fyrir júlímánuð. Spá Greiningardeildar Arion banka gerir ráð fyrir 0,2% lækkun verðlags í júlímánuði á meðan Greining Íslandsbanka spáir 0,1% hækkun á vísitölu neysluverðs á sama tíma.

Í spá Greiningardeildar Arion banka segir að skeiði verðbólgu undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans muni ljúka nú með haustinu en það hefur varið í tæpt eitt og hálft ár. Bráðabirgðaspá þeirra fyrir næstu mánuði gerir ráð fyrir að verðlag hækki um 0,3% í ágúst en 0,4% í september og október og mun ársverðbólgan þá standa í 2,4%. Sumarútsölurnar hafa mest áhrif á verðlag í þessum mánuði að hennar mati líkt og gilt hefur síðastliðin ár en hún spáir því að áhrif þeirra á vísitölu neysluverðs muni vera -0,58%.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa versnað lítið eitt frá síðustu spá að mati Greiningar Íslandsbanka. Hún telur að verðbólgan muni verða undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans út þriðja ársfjórðung, en fara yfir markmiðið á síðasta ársfjórðungi. Horfur eru á vaxandi verðbólgu í kjölfarið, en hún verður samkvæmt spánni rétt innan 4,0% efri þolmarka verðbólgumarkmiðsins næstu ár. Tver þættir vega þyngst til verðlagshækkunar í mánuðinum að mati Greiningarinnar en þeir eru annars vegar húsnæðisliður vísitölu neysluverðs og hins vegar flugfargjöld. Hún spáir því að húsnæðisliðurinn hækki um 1,3% milli mánaða (0,36% áhrif í VNV). Þar vegur þungt 1,7% hækkun á reiknaðri húsaleigu (0,25% í VNV). Vísbendingar eru um að þeir kaupsamningar um íbúðarhúsnæði sem gerðir voru í aprílmánuði og þinglýst var á síðustu vikum hafi hljóðað upp á talsvert hærra fermetraverð en eldri samningar.

Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir júlí kl. 09:00 þann 23. júlí næstkomandi.