Breska hagkerfið mun vaxa hægar en öll önnur hagkerfi í Evrópu á næstu tveimur árum að Ítalíu undanskilinni miðað við spá Alþjóðagjaldeyrisjóðsins.

The Financial Times greinir frá því að árið 2016 var hagvöxur í Bretlandi einna mestur af þróuðum ríkjum en í fyrra var hann nálægt botninum og mun verða þar áfram reynist spár AGS réttar.

Þrátt fyrir hægan vöxt ráðleggur AGS breska seðlabankanum að hækka vexti þar sem verðbólguþrýstingur hefur verið viðvarandi vegna lækkunar á gengi pundsins í kjölfar Brexit atkvæðagreiðslunnar.

Þá gerir spáin ráð fyrir að minni erlend fjárfesting og aðgangshindranir á mörkuðum í kjölfar þess að úrsögn Bretlands tekur gildi komi í veg fyrir aukinn hagvöxt.