Hagvöxtur á Íslandi á árinu 2011 verður um 0,5% ef spá tímaritsins The Economist gengur eftir. Það kemur Íslandi í hóp þeirra tíu ríkja sem The Economist telja að muni búa við minnstan hagvöxt á árinu.

Til samanburðar gerir Seðlabanki Íslands og Hagstofan ráð fyrir 1,9% hagvexti á Íslandi í ár, samkvæmt nýjustu spám stofnananna.

Ríki í námunda við Ísland á lista tímaritsins eru Spánn, Bahamaeyjar og Ítalía. Spáð er samdrætti þjóðarframleiðslu í sex löndum, mestum í Púertó Ríkó eða rúmlega 4% samdrætti. Einnig er spáð samdrætti á Írlandi, í Portúgal og í Grikklandi.

Ef marka má spá The Economist um hagvöxt ríkja á árinu 2011 eykst hagsæld mest í Katar. Þar er spáð um 16% vexti landsframleiðslu á árinu. Önnur ríki í efstu sætum á listanum eru Ghana, Mongólía, Eþíópía og Kína.

Hagspá The Economist má sjá hér .