Fasteignaverð í Bandaríkjunum er á hraðri niðurleið samkvæmt Case-Shiller húsnæðisverðsvísitölum Standard & Poor´s. Vísitalan sem mælir verð á tíu stórborgarsvæðum í Bandaríkjunum lækkaði um 6,7% í október og hefur hún ekki lækkað meira í einum mánuði síðan mælingar hófust árið 1987, að sögn greiningardeildar Landsbankans.   Hún segir að síðasta metlækkun vísitölunnar, 6,1%, var í apríl 1991 þegar bandaríska hagkerfið var í mikilli lægð. Önnur Vísitala Case-Shiller sem mælir verð á 20 stórborgarsvæðum í Bandaríkjunum lækkaði lítið eitt minna eða um 6,1%.    “Hagfræðingar ytra sjá þróunina nú sem nauðsynlega aðlögun þar sem húsnæðisverð færist í átt að raunverulegri kaupgetu Bandaríkjamanna, að því er fram kemur í Wall Street Journal. Fræðimenn eru ekki sammála um hversu mikil lækkunin muni verða eða hversu lengi hún muni vara en eru þó sammála um að verð muni í það minnsta halda áfram að lækka á næsta ári. Sumir hagfræðingar óttast að fallandi húsnæðisverð geti valdið kreppu í Bandaríkjunum á meðan aðrir telja það harla ólíklegt enda sé atvinnuástand gott og tekjuvöxtur stöðugur,” segir greiningardeildin.   Greiningardeildin býst við 9% lækkun fasteignaverðs hérlendis á næsta ári. “Óvissa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum veldur því að líkur á viðsnúningi á fasteignamarkaði hér á landi eru meiri en áður, en undanfarið hafa birst vísbendingar um að eftirspurn eftir fasteignum fari minnkandi,” segir hún.