Í þremur af síðustu fjórum mánuðum hefur húsnæðisverð í Bretlandi lækkað og samkvæmt könnun Bloomberg á meðal hagfræðinga mun húsnæðisverð halda áfram að lækka á árinu 2005 sem væri þá fyrsta árslækkun í áratug. Meðalspá þeirra hagfræðinga sem tóku þátt í könnunni hljóðar uppá 1% lækkun meðalverðs íbúðarhúsnæðis á árinu 2005. Verð íbúðarhúsnæðis hefur hækkað um rúmlega 160% síðan að Tony Blair forsætisráðherra Breta tók við embætti árið 1997 og stóð meðalverð íbúðarhúsnæðis í nóvember 2004 í rúmlega 18 milljónum króna.

Til samanburðar hefur íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæði Íslands hækkað um rúmlega 120% frá ársbyrjun 1997 og má ætla að meðalverð íbúðarhúsnæðis í nóvember 2004 hafi verið um 12 milljónir króna ef tekið er mið af fasteignamati.

Í Hálffimmfréttum KB banka kemur fram að hækkandi eignaverð hefur valdið auðsáhrifum og aukið veðrými sem hefur hvatt til aukinnar skuldasöfnunar heimila, einkaneysla hefur farið vaxandi í kjölfarið sem hefur hjálpað til við að halda uppi stöðugum hagvexti allt frá árinu 1991. Virði íbúðarhúsnæðis í Englandi nemur nú þrisvar sinnum verðmæti vergrar landsframleiðslu og um 40% af auði einstaklinga. Til samanburðar má nefna að virði íbúðarhúsnæðis á Íslandi er nú gróflega áætlað tvisvar sinnum verg landsframleiðsla.

Síðast þegar húsnæðisverð lækkaði í Bretlandi í byrjun árs 1990 sigldi hagkerfið inní samdráttarskeið sem varði í 5 ársfjórðunga. Lækkun húsnæðisverðs gæti grafið undan einkaneyslu sem hefur verið ein helsta stoð lengsta hagvaxtartímabils í rúma tvo áratugi. Ríkissjóður Bretlands er eini aðilinn sem ekki spáir því að draga taki úr hagvexti í kjölfar endalokar langs þensluskeiðs á fasteignamarkaði. Fjármálaráðherra Bretlands skýrði frá því þann 2. desember að vænta mætti 3?3,5% hagvexti á árinu 2004 en á árinu 2004 nam hann um 3,25%. Aðrir aðilar spá hins vegar mun minni hagvexti á árinu 2005, til að mynda spáir Englandsbanki 2,5% hagvexti og OECD 2,6% hagvexti