Olíuverð náði sögulegu hámarki í ágúst. Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að margir óttast að hátt olíuverð geti leitt af sér efnahagserfiðleika, sér í lagi ef það hækkar enn frekar. Sérfræðingar Morgan Stanley telja hins vegar líkur aukast á að olíuverð eigi eftir að lækka frá því sem nú er og að efnahagslíf heimsins muni sleppi við skell. Telja þeir að meðalverð olíufats þetta og næsta ár verði 48 dollarar og til lengri tíma megi búast við að verðið verði nærri 38 dollurum fyrir fatið.

Þeir benda á að ólíkt fyrri tímabilum hás olíuverðs séu miklar hækkanir undanfarið að stórum hluta til komnar vegna aukinnar eftirspurnar, og þar með sé innbyggð ákveðin leiðrétting ef hægja fer á hjólum efnahagslífs iðnríkjanna. Auk þess hafi hlutfall olíukostnaðar og landsframleiðslu helmingast frá 1970 og þar með mikilvægi olíu fyrir hagkerfi OECD ríkja. Síðast en ekki síst benda Morgan Stanley-menn á aukna birgðasöfnun.

Olíuverð hefur hækkað jafnt og þétt síðustu ár, úr liðlega 20 dollurum á fat um áramótin 2001/2002 í tæplega 70 dollara fatið í þessum mánuði. Hefur þetta verið ýmsum áhyggjuefni, enda hafa snarpar olíuverðshækkanir gjarnan neikvæð áhrif á gang hagkerfa í iðnríkjunum. Þannig hafa t.d. öll samdráttarskeið síðustu 35 ára í Bandaríkjunum komið í kjölfar brattra olíuverðshækkana.

Byggt á Morgun korni Íslandsbanka.