Greiningardeild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs lækki um 0,1% í júlí. Gangi spáin eftir mun verðbólgan (12 mánaða breyting) haldast óbreytt i 3,9%. Forsendur spárinnar eru m.a. þær að fatnaður, sem vegur 5,6% í vísitölunni, muni lækka töluvert milli mánaða. Sumarútsölur hafa verið að færast framar á dagatalinu, í fyrra lækkaði fatnaðarliður vísitölunnar um 6,8% í júlí og gerum við ráð fyrir sambærilegri lækkun í ár. Einnig er gert ráð fyrir að húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. hafi áhrif til lækkunar vísitölunnar og bensínlækkun frá því í byrjun júní hefur að óbreyttu 0,04% áhrif til lækkunar. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Þar kemur ennfremur fram að spáin gerir ráð fyrir 1,65% hækkun á markaðsverði húsnæðis milli mánaða en mánaðarhækkun húsnæðisverðs hefur verið að meðaltali 1,9% undanfarna þrjá mánuði. "Erfitt er að spá í þróun húsnæðisverðs en á töflunni hér til hliðar má sjá hver áhrif mismunandi breytinga húsnæðisverðs milli mánaða yrðu á þessa spá. Hækkun á gjaldskrá Orkuveitunnar virkar til hækkunar og hugsanlegt er að einhverjar breytingar verði á eldsneytisverði í byrjun júlí. Verð á hráolíufati (Brent crude) hefur lækkað um rúm 8%, mælt í krónum, frá 3.júní sl. þegar olíufélögin lækkuðu bensínverð lítillega. Verðhækkun á bensíni er ólíkleg m.v. þróun heimsmarkaðsverðs en lækki bensínverð kann spáin að verða endurskoðuð til lækkunar. Vísitala neysluverðs er mæld fyrstu tvo daga hvers mánaðar og birtir Hagstofan vísitöluna þann 12. júlí næstkomandi," segir í Vegvísi Landsbankans.