Áætluð raforkunotkun til lengri tíma litið er heldur meiri í nýrri spá raforkuhóps orkuspárnefndar en í síðustu spá. Spáin nær fram á miðja þessa öld en síðast gaf nefndin út slíka spá árið 2005.

Í frétt um spá orkunefndar á vef Orkustofnunnar segir að almenn heimilisnotkun utan rafhitunar hafi frá síðustu spá haldið áfram að vaxa hratt. Ef horft er til ársins 1996 hefur hún aukist úr 3,5 Mwh á hvert heimili í 4,9. „Helstu orsakir hækkunarinnar eru að tækjum hefur fjölgað mikið á heimilum á þessu tímabili svo sem sjónvörpum og tölvum. Einnig hefur vægi raforku í útgjöldum heimila minnkað yfir þetta tímabil og af þeim sökum er minni hvati til að spara orkuna en áður. Áfram er gert ráð fyrir aukningu í notkun heimila og að hún verði komin í 5,4 MWh/heimili árið 2020 en standi í stað eftir það.“

Fyrsti samdráttur síðan á 4. áratug

Segir að spá um almenna notkun hafi staðist vel á undanförnum árum, þó aukning hafi verið meiri en spá var fram til ársins 2008. „ Almenn raforkunotkun hefur minnkað síðustu tvö ár samhliða samdrætti í efnahagsmálum og er þetta í fyrsta skipti sem einhver samdráttur að ráði er í notkuninni allt frá kreppuárunum á 4. áratug síðustu aldar.“

Vaxið hraðast í þjónustu

Utan stóriðju hefur raforkunotkun vaxið hraðast í þjónustu. Notkun í iðnaði hefur minnkað frá síðustu spá. „Samhliða uppbyggingu virkjana á undanförnum árum hefur notkun raforku við veitustarfsemi aukist og er þar að mestu um að ræða eigin notkun í virkjunum. Hlutfallsleg töp við flutning og dreifingu raforku hafa farið minnkandi á undanförnum árum samhliða hröðum vexti notkunar og voru flutningstöp árið 2009 um 2,1% af raforkuvinnslunni og dreifitöp um 0,9%. Eigin notkun í virkjunum var síðan um 2,2% af vinnslunni og samtals voru þessir þrír þættir því 5,3% af raforkuvinnslunni.“

Að raforkuhópi orkuspárnefnd standa Landsnet, Orkustofnun, Norðurorka, Orkuveita Reykjavíkur, Rarik og Samorka.

Raforkuspá 2010-2050 .