Greining Íslandsbanka og Greiningarþjónusta IFS spá báðar því að verðlag muni lækka í júlí, en að tólf mánaða verðbólga muni hækka. IFS spáir því að verðlag lækki um 0,3% í mánuðinum, sem þýðir að tólf mánaða verðbólga muni hækka úr 3,3% í 3,8%. Þetta er minni verðhjöðnun en IFS hafði áður gert ráð fyrir, en flutninga- og húsnæðisliðir virðast hafa hækkað meira en búist hafði verið við, að því er segir í frétt IFS. Nýjar verðbólgutölur munu birtast hjá Hagstofunni þann 24. júlí.

Greining Íslandsbanka spáir 0,2% lækkun verðlags í júní og þar af leiðandi 3,9% tólf mánaða verðbólgu í mánuðinum. Gangi spáin eftir hefur verðbólga ekki verið hærri síðan í febrúar.

Í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka segir að útsöluáhrif vegi þungt í lækkun neysluverðsvísitölu í júlí, enda sumarútsölur í algleymingi. Er gert ráð fyrir svipuðum útsöluáhrifum og síðustu ár, og vega þau samtals til u.þ.b. 0,6% lækkunar vísitölunnar í mánuðinum.

Á hinn bóginn gerir Íslandsbanki ráð fyrir dágóðri hækkun á húsnæðislið og ferða- og flutningalið vísitölunnar í mánuðinum.

Að mati Greiningar Íslandsbanka munu næstu mánuðir einkennast af áhrifum útsöluloka og árstíðabundinna hækkana á ýmsum þjónustuliðum, auk áframhaldandi hækkunar húsnæðisverðs. Verðlækkun vegna sumarútsala sé hins vegar skammgóður vermir og komi útsöluáhrifin að fullu til baka í ágúst og september.

„Gengisþróun krónu, útkoma kjarasamninga í árslok 2013, þróun íbúðaverðs og efnahagsstefna nýrrar ríkisstjórnar verða meðal helstu áhrifaþátta á verðbólguþróun næstu tveggja ára að mati okkar. Við gerum ráð fyrir að kjarasamningum verði landað með nafnlaunahækkun í takti við síðustu kjarasamninga. Hins vegar gerum við ráð fyrir að talsvert líf verði á íbúðamarkaði þegar frá líður og að verð hækki nokkuð hratt á komandi árum. Spá okkar gerir svo ráð fyrir að krónan veikist nokkuð að jafnaði næstu árin, og að einhver árstíðasveifla verði áfram til staðar þótt hin breytta stefna Seðlabankans muni væntanlega draga nokkuð úr henni. Spáum við því að verðbólga verði 4,0% yfir þetta ár og 3,8% yfir næsta ár,“ segir í Morgunkorninu.