Gera má ráð fyrir því að hlutabréf bandaríska álrisans hækki um allt að 30% á þessu ár, samkvæmt nýrri spá greiningardeildar Morgan Stanley.

Frá þessu er greint á vef Reuters en viðskiptablaðsið Barron fjallaði um Alcoa, sem er næst stærsti álframleiðandi heims, í ítarlegri úttekt í dag. Höfundar skýrslunnar um Alcoa segja að álverð sé nú í lægstu hæðum og töluverð eftirspurn verði eftir áli strax á þessu ári og næstu ári.

Alcoa mun birta ársuppgjör sitt fyrir árið 2011 eftir lokun markaða í Bandaríkjunum á morgun. Samkvæmt spá Morgan Stanley á uppgjör fjórða ársfjórðungs þó eftir að valda vonbrigðum. Álverð lækkaði töluvert á seinni hluta ársins og gert er ráð fyrir að rekstrarhagnaður Alcoa verði neikvæður á fjórða ársfjórðungi.

Hins vegar gerir greiningardeild Morgan Stanley sem fyrr segir ráð fyrir aukinni eftirspurn eftir áli á næstu misserum. Þannig ætla skýrsluhöfundar að eftirspurn sé eftir mismunandi áli, allt frá gosdrykkjadósum, áli í flugvélaframleiðslu og hlífar fyrir spjaldtölvur á borð við iPad.

Bókfært gengi Alcoa er í dag átta Bandaríkjadalir á hlut en greiningardeild Morgan Stanley spáir víð að hluturinn fari upp í 13 dali á árinu. Gengi Alcoa var um 9,1 dalur við lok markaða vestanhafs á föstudaginn.

Alcoa
Alcoa
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

Alcoa rekur meðal annars Fjarðarál á Reyðarfirði.