Á næstu áratugum er gert ráð fyrir miklum breytingum varðandi orkugjafa sem nýttir er í samgöngum og samkvæmt nýrri skýrslu um Raforkuspá 2015-2050 mun raforka leika þar stórt hlutverk.

„Ekki er ljóst hve hröð sú þróun verður eða hvaða lausnir verða fyrir valinu en margt bendir til þess að tengiltvinnbílar og hreinir rafbílar munu koma sterkt inn í þessa þróun," segir í skýrslunni. „Margir bílaframleiðendur hafa sett á markað rafbíla og mun framboð þeirra aukast á næstu árum. Líklegt er að skipti yfir í nýjan orkugjafa eigi sér stað í nokkrum skrefum, fyrst komi á markaðinn tengiltvinnbílar sem nýta bæði raforku og eldsneyti og síðan taki við hreinir rafbílar eða bílar knúnir með öðrum nýjum orkugjöfum."

Samkvæmt spá Orkustofnunar munu rafbílar fara að ná fótfestu hér á næstu árum. Talið er að árið 2031 verði þeir  51% af nýjum fólksbifreiðum og 90% í lok tímabilsins, eftir 35 ár.

„Framtíð rafbílsins byggir að stórum hluta á því að orkuþéttleiki rafhlaða aukist og verð þeirra lækki en mikil þróun er í gangi hvað varðar þessa þætti. Stjórnvöld geta stýrt þróuninni að einhverju leyti með sköttum og gjöldum, og er Noregur glöggt dæmi um það hvernig ívilnanir rafbíla í umferðinni og langtíma ákvarðanir stjórnvalda á niðurfellingu gjalda hafa hraðað rafbílavæðingu þar og er hlutfall rafbíla af nýjum bílum það hæsta í heiminum, verður rúm 20% á þessu ári."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .