Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman spáir því að aðeins fáist 0,8 dalir fyrir hverja evru fyrir loks árs 2017. Í dag er gengið 1,06 evra gagnvart dal.

Goldman Sachs hefur lengi spáð því að evran myndi styrkjast gagnvart dalnum. Það breyttist í apríl á síðasta ári, aðallega vegna mun minni hagvaxtar í Evrópusambandslöndunum og evrulöndunum en Bandaríkjunum.

Í ágúst spáði Goldman Sachs að evran myndi falla og verða jöfn bandaríkjadal fyrir lok árs 2017. Í ársbyrjun spáði bankinn svo að gjaldmiðlarnir yrðu jafn verðmætir í árslok 2016.

Samkvæmt nýjustu spá bankans, sem Business Insider birti í gær , mun evran veikjast um 25% gagnvart dalnum fyrir lok árs 2017. Goldman Sachs spáir því að að gjaldmiðlarnir tveir verði jafn verðmiklir innan sex mánaða.

Krónan fylgi evrunni

Íslenska krónan hefur fylgt evrunni nánast algjörlega á undanförnum mánuðum, eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í síðustu viku . Krónan hefur aðeins styrkst um 4,3% frá júlí í fyrra, en veikst um 24% gagnvart Bandaríkjadal.