Viðskiptajöfnuður gæti að öðru óbreyttu versnað sem nemur um 125 milljörðum króna á árunum 2014 til 2018 vegna aukins innflutnings í kjölfar skuldaaðgerða ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í mati Seðlabankans sem gert var að beiðni Fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna fyrirspurnar frá Össuri Skarphéðinssyni þingmanni Samfylkingarinnar.

Í fyrirspurn Össurar er spurt um hve háa fjárhæð talið er að viðskiptajöfnuður muni versna á næstu fimm árum vegna aðgerðanna, hve miklu megi ætla að afborganir erlendra lána í krónum talið muni nema umfram viðskiptaafgang á þessum árum miðað við að viðskiptajöfnuður vaxi um 3,5% árlega líkt og meðaltal síðustu þriggja ára og í ljósi þessa hver áhrif aðgerðanna eru á getu Íslands til að standa við erlendar greiðsluskuldbindingar á næstu fimm árum.

Samkvæmt mati Seðlabankans gæti viðskiptajöfnuðurinn versnað um 125 milljarða. Bankinn miðar svo við að afborganir erlendra lána annarra aðila en ríkis og Seðlabanka nemi um 185 milljörðum króna umfram undirliggjandi viðskiptajöfnuð á næstu fimm árum. Þá nemi ófjármagnaðar afborganir erlendra lána um 95 milljörðum umfram viðskiptajöfnuð. „Ef tekið er mið af því að búið er að safna fyrir umtalsverðum afborgunum á næstu árum eru erlendar ófjármagnaðar afborganir annarra aðila en ríkis og Seðlabanka á árunum 2014-2018 um 95 ma.kr. umfram undirliggjandi viðskiptajöfnuð yrði hann að 3,5% af VLF árlega eins og lagt er út frá í fyrirspurn þingmannsins,“ segir í minnisblaði Seðlabankans.

Þess má geta að í svari fjármálaráðherra er vísað til þessa mats Seðlabankans. Þá segir að aðgerðirnar séu einnig ákveðinni óvissu háðar. „Áhrif aðgerðanna eru ákveðinni óvissu háð, en séreignarsparnaðarleiðin vegur á móti áhrifum lækkunar höfuðstóls verðtryggðra lána þar sem hún hvetur til aukins sparnaðar heimila. Stjórnvöld geta auk þess gripið til hagstjórnarlegra áhrifa til þess að draga úr neikvæðum áhrifum aðgerðanna á getu Íslands til þess að standa við erlendar greiðsluskuldbindingar sína. Við aðstæður sem þessar skiptir ekki síst máli að fjármál hins opinbera séu rekin af ábyrgð, en styrk stjórn opinberra fjármála ýtir undir þjóðhagslegan sparnað. Þannig verði þjóðhagsleg áhrif aðgerða til lækkunar skulda heimilanna jákvæðari og birtist aðeins að litlu leyti í neikvæðum áhrifum á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins,“ segir í svari ráðherra.