Nýjar spár gera nú ráð fyrir því að hagvöxtur verði minni í Suður-Kóreu en áður var spáð. S-kóreska fjármálaráðuneytið sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem segir að nú sé gert ráð fyrir 3,4% hagvexti í ár og 3,8% hagvexti á næsta ár í stað 3,7% í ár og 4,0% á næsta ári samkvæmt eldri spám.

Fjárfesting og einkaneysla eru minni en gert hafði verið ráð fyrir, að því er segir í frétt BBC. Á þessu ári hefur seðlabanki landsins tvívegis lækkað stýrivexti til að ýta undir hagvöxt, en ekki haft erindi sem erfiði.

Þá hefur ríkisstjórn S-Kóreu sagst ætla að kynna aðgerðir til að ýta undir fjárfestingu og einkaneyslu, þar á meðal með því að hækka lágmarkslaun og með því að láta meirihluta útgjalda næsta árs koma til á fyrri helmingi ársins.