Gert er ráð fyrir því að velta Marels á þessu ári verið eitthvað minni en í fyrra, m.a. vegna þess að pöntunum hjá fyrirtækinu hefur fækkað á árinu. Kom þetta fram á fjárfestakynningu Marels vegna árshlutauppgjörs fyrirtækisins sem kom út í gær.

Það sem af er árinu er velta Marels 9,4% minni en á sama tímabili í fyrra og efnahagsleg óvissa heldur áfram að valda töfum á stórum fjárfestingum viðskiptavina fyrirtækisins.

Spár fyrirtækisins gera nú ráð fyrir því að hlutfall rekstrarhagnaðar (EBIT) af veltu verði aftur orðið 10%-12% á næsta ári.

Í máli Theo Hoen, forstjóra Marels, á fundinum í dag kom fram að óvissa ríki enn um það hvenær helstu markaðir muni ná sér að nýju, en jákvæð merki megi greina í Norður Ameríku.

Meðal jákvæðra teikna sem hann sagði að sjá mætti á sjóndeildarhringnum væru m.a. spár sem gerðu ráð fyrir 2,9% framleiðsluaukningu á fiski og að bandaríska landbúnaðarráðuneytið gerði ráð fyrir því að framleiðsla myndi aukast á kjúklingakjöti vegna lækkandi fóðurkostnaðar.