Alþjóða orkustofnunin (e. Internatonal Energy Agency) spáir því að vöxtur eftirspurnar eftir olíu á heimsvísu fari niður í 1,2 milljón tunna á dag árið 2016 sem er nokkuð minna en í fyrra þegar eftirspurn jókst um 1,8 milljón tunnur á dag. Þetta kemur fram í nýjustu skýrslu stofnunarinnar fyrir aprílmánuð.

Ástæðan fyrir eftirspurnarsamdrættinum er rakin til minni eftirspurnar í Kína, Bandaríkjunum og meirihluta Evrópuríkja. Bráðabirgðagögn gefa til kynna að samdrátturinn sé þegar hafinn þar sem eftirspurnarvöxtur síðustu 12 mánaða er þegar kominn í 1,2 milljón tunna á dag.

Olíuframboð dróst saman um 300.000 tunnur á dag í mars niður í 96,1 milljón tunna á dag. Stofnunin spáir því að framboð utan OPEC ríkjanna dragist saman um 710.000 tunnur á dag á þessu ári niður í 57 milljónir tunna á dag. Innan OPEC ríkjanna minnkaði framboð um 90.000 tunnur á dag í mars niður í 32,47 milljónir tunna.

Hér er hægt að nálgast umfjöllun um skýrslu Alþjóða orkustofnunarinnar.